Þórhallur Sigurðsson heiðursmeðlimur ASSITEJ


Þórhallur Sigurðsson leikstjóri hefur verið útnefndur heiðursmeðlimur ASSITEJ á Íslandi. Tilkynnt var um nafnbótina við setningu sviðslistahátíðarinnar UNGA sem fram fór í ráðhúsi Reykjavíkur á sumardaginn fyrsta, 21. apríl 2016. ASSITEJ eru alþjóðleg samtöl fagfólks sem gerir leikhús fyrir yngri áhorfendur og hefur Íslandsdeild samtakanna verið starfrækt allt frá árinu 1990. Þórhallur, sem fagnar 50 ára leikafmæli á árinu á að baki stórkostlegan feril bæði sem leikari og leikstjóri. ASSITEJ hyllir Þórhall á þessum tímamótum og þakkar honum mikilsvert og óeigingjarnt starf í þágu sviðslista fyrir unga áhorfendur í gegnum tíðina.

Áhugi Þórhalls á leikhúsi fyrir börn kviknaði snemma og hefur varað alla tíð. Í Þjóðleikhúsinu lék hann í fjölmörgum barnasýningum. Hann lék Gríslinginn í Bangsímon, Litla Kláus í Litla Kláusi og Stóra Kláusi, Aldinborann í Ferðinni til tunglsins og Jónatan í Kardimommubænum. Honum eru einnig kær hlutverkin í skólasýningunum INÚK, Grænjöxlum og Næturgalanum sem sýndar voru mörg hundruð sinnum út um allt land og víða erlendis.

Af þeim nærri fimmtíu leiksýningum sem Þórhallur hefur leikstýrt fyrir Þjóðleikhúsið eru þó nokkrar barnasýningar. Þar má nefna Krukkuborg, Ömmu þó, Emil í Kattholti, Bláa hnöttinn og Jón Odd og Jón Bjarna meðal annarra. Hann hefur verið listrænn stjórnandi Kúlunnar, litla barnaleikhúsins sem opnað var í Þjóðleikhúsinu fyrir 10 árum og leikstýrt þar sýningunum Gott kvöld, Litla skrímslið og Stóra skrímslið, Sindri silfurfiskur , Kuggur og leikhúsvélin, Gamli maðurinn og hafið og tveimur sýningum með Skoppu og Skrýtlu. Jólasýningin Leitin að jólunum sem hefur verið sýnd á aðventunni í 11 ár er líka undir hans leikstjórn og eru sýningar á verkinu nú orðnar samtals 250.

Þórhallur hefur einnig gefið sig að leikstjórn í brúðuleikhúsi og hafa margar þeirra sýninga hlotið verðlaun á erlendum leiklistarhátíðum og sumar verið sýndar í sjónvarpi.

Þórhallur var einn af stofnendum Íslandsdeildar ASSITEJ, alþjóðlegra samtaka barnaleikhúsa árið 1990 og hefur setið í stjórn ASSITEJ allar götur síðan.

Þórhallur Sigurðsson heiðursmeðlimur ASSITEJ

Því miður gat Þórhallur ekki verið viðstaddur athöfnina í ráðhúsinu þar sem hann var staddur erlendis. Við viðurkenningunni tóku tvö barnabarna hans, Bríet og Sigþór.

#Ungi2016 #ÞórhallurSigurðsson #heiðursmeðlimur #honorarymember

Fylgstu með
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square